Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og Samtök iðnaðarins (SI) stóðu saman að talningu íbúða í byggingu á landinu öllu sem hófst um miðjan ágúst sl. og lauk í byrjun september síðastliðinn. Í talningunni er lagt mat á framvindu hverrar íbúðar í þeim tilgangi að fá betri yfirsýn yfir hvenær áætlað er að komi á markað.
Samkvæmt nýjustu talningu eru alls 8.113 íbúðir í byggingu á landinu öllu og þar af eru 2.417 íbúðir í byggingu utan höfuðborgarsvæðisins sem eru tæplega 30% af heildarfjölda íbúða í byggingu. Þessi greining mun einblína á landsbyggðina þ.e. alla landshluta að höfuðborgarsvæðinu frátöldu.
Ef niðurstöður talningarinnar eru flokkaðar eftir landshlutum þá eru fjölgun í öllum landshlutum nema á Suðurnesjum frá síðustu talningu sem fór fram í mars síðastliðinn en í samanburði við niðurstöður talningarinnar á sama tíma fyrir ári síðan þá er aukning í öllum landshlutum nema á Norðurlandi vestra þar sem íbúðum í byggingu fækkaði um eina. Mesta aukningin er Suðurlandi þar sem íbúðum í byggingu fjölgaði um 204 íbúðir frá mars sl. sem má að mestu leyti rekja til aukningar í Sveitarfélaginu Árborg þar sem íbúðum í byggingu fjölgaði um 187 íbúðir.
Áhugavert er að skoða niðurstöður talningarinnar í samhengi við núverandi fjölda íbúða á hverju svæði og skoða hvert hlutfall íbúða sem er í byggingu er af núverandi íbúðafjölda. Sá mælikvarði gefur skýrari mynd á vexti svæðisins. Samkvæmt þeim mælikvarðar er mesti vöxturinn á Suðurlandi þar sem íbúðir í byggingu eru 7,7% af núverandi fjölda íbúða sem er um 1,6 prósentustiga aukning á milli ára. Einnig er mikill vöxtur á Vesturlandi þar sem hlutfallið er 5% og hækkar um 1,4 prósentustig á milli ára. Ef borið er saman við talninguna í september fyrir ári síðan þá er hlutfallið að hækka í öllum landshlutum nema á Norðurlandi vestra þar sem hlutfallið stendur í stað.
Miðað við fjölda íbúða í byggingu á landsbyggðinni og áætlaðan tíma fyrir verklok þeirra verkefna má gera ráð fyrir að 372 íbúðir verði fullbúnar til viðbótar það sem eftir er af þessu ári. Árið 2023 verði 1.024 íbúðir fullbúnar af þeim sem eru í byggingu núna og 1.021 íbúðir árið 2024.
Mikill fjöldi fullbúinna íbúða komu inn á markaðinn á landsbyggðinni á árunum 2006 og 2007 sem má rekja til þess að á þeim árum bættust við fjöldi íbúða sem voru á varnarstöðvum bandaríska hersins í Reykjanesbæ. Ef þessi ár eru tekin út fyrir mengið þá má áætla að í ár verði met í fjölda fullbúna íbúða á einu ári þar sem HMS spáir að 1.405 íbúðir verði fullbúnar árið 2022 á landsbyggðinni. Mjög lítið var byggt á árunum 2009-2017 en jákvætt er að síðustu þrjú ár hefur fjöldi fullbúna íbúða verið yfir þúsund á hverju ári.
Niðurstaða talningar í september 2022 eftir sveitarfélagi.