Byggingaraðilinn Hrafnshóll ehf. hefur hafið byggingu á fimm íbúðum á Reyðarfirði. Íbúðirnar sem verið er að byggja fyrir húsnæðissjálfseignastofnunina Brák hses. eru ætlaðar til langtímaleigu fyrir fólk undir tekju- og eignamörkum. Íbúðirnar fimm eru í raðhúsi á einni hæð með þremur minni og tveimur stærri íbúðum. Minni íbúðirnar eru um 77 fermetrar með þremur svefnherbergjum og stærri íbúðirnar eru um 90 fermetrar með fjórum svefnherbergjum.
Húsið sem byggt er úr forsmíðuðum timbureiningum er nú að fullu reist og hófu rafvirkjar og píparar að leggja lagnir að húsinu í byrjun júní mánaðar. Nú þegar júní mánuður er að líða undir lok er pípulögnum að þrifatækjum nánast lokið og raflögnum í veggi og loft verður lokið í kringum mánaðarmótin. Innandyra eru allir milliveggir reistir og áætlað er að húsið verði tilbúið til innréttinga fljótlega eftir mánaðarmótin júlí ágúst. Um miðjan júlí er stefnt að því að ljúka klæðningu hússins að utan, en það er klætt með timbri. Áætlað er að verkframkvæmdum ljúki og að húsið verði tilbúið til afhendingar eigi síðar en 1. október nk. samkvæmt verksamningi.
Fjarðabyggð fékk úthlutað stofnframlögum ásamt sérstöku byggðaframlagi til byggingar íbúðanna í úthlutun HMS fyrir árið 2021. Fjarðabyggð er eitt af sveitarfélögunum sem komu að stofnun Brák hses. og hafa stofnframlögin verið færð yfir til Brák hses. sem mun til framtíðar sjá um rekstur íbúðanna.