Fjarðabyggð, leigufélagið Bríet, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og verktakafyrirtækið Búðingar ehf. undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu um uppbyggingu og styrkingu leiguíbúðamarkaðarins í Fjarðabyggð. Samkvæmt viljayfirlýsingunni þá mun Leigufélagið Bríet bæta við íbúðum í eignasafn sitt í Fjarðabyggð í samræmi við þörf fyrir leiguíbúðir í hverju byggðalagi í sveitarfélaginu. Hafist verði handa við byggingu á fjórum íbúðum í Neskaupstað fyrir Leigufélagið Bríeti þar sem áætlað er að framkvæmdir hefjist strax í júní nk. og áætluð afhending íbúðanna verði í lok febrúar á næsta ári. Jafnframt verði hafin bygging á tveimur íbúðum á Breiðdalsvík seinnipart sumars í ár og stefnt á að því verki ljúki seinni part árs 2023. Verktakafyrirtækið Búðingar ehf. mun sjá um framkvæmdir á báðum stöðum. Samhliða viljayfirlýsingunni var jafnframt skrifað undir samkomulag um að Bríet kaupi þessar íbúðir auk tveggja íbúða á Fáskrúðsfirði sem Búðingar ehf. hafa unnið við að undanförnu og er áætlað að verði tilbúnar til afhendingar í lok júní næstkomandi.
Fjarðabyggð kemur til með að eignast hlut í Bríeti þar sem Bríet mun taka við rekstri íbúða í eigu sveitarfélagsins og verður þar með fyrsta sveitarfélagið til að verða hluthafi í leigufélaginu. Með þessu eru stigin fyrstu skref í samstarfi Fjarðabyggðar við leigufélagið Bríet sem skrifað var undir síðasta haust.
Næstu verkefni eru undirbúningur á enn frekari uppbyggingu í Fjarðabyggð með byggingu leiguíbúða á Eskifirði og Stöðvafirði. Sú vinna hófst nú í maí sl. og er stefnt að samkomulagi þess efnis síðar í sumar.
