Leigufélagið Bríet sem er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hyggst koma að uppbyggingu á 6 íbúðum á Seyðisfirði. Í dag undirrituðu Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Bríetar og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, viljayfirlýsingu á Seyðisfirði þess efnis.
Fyrir hamfarirnar á Seyðisfirði þegar aurskriður féllu á íbúðabyggð auglýsti Bríet eftir byggingaraðilum til samstarfs um uppbyggingu á 2 leiguíbúðum og í kjölfarið lýstu byggingaraðilar yfir áhuga á að koma að verkefninu. Eftir að aurskriðurnar féllu í desember sl. var ákveðið að íbúðirnar yrðu allt að 6. Til greina kemur að samið verði um að væntanlegir leigjendur íbúðanna geti keypt eignirnar að vissum tíma liðnum.
Áætlað er að íbúðirnar verði um 80-100 m2 íbúðir með allt að þremur svefnherbergjum en Bríet leggur áherslu á byggingu íbúða sem eru í hagkvæmri stærð, til að nýta sem best fjármagn félagsins og svo að leiguverð þeirra sé viðráðanlegt. Áætlað er að framkvæmdum á fyrstu íbúðunum ljúki og að þær verði teknar í notkun á fyrri hluta ársins 2022.